Fótbolti

Roma búið að ráða 36 ára fyrrverandi framherja liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincenzo Montella
Vincenzo Montella Mynd/AP
Vincenzo Montella mun stýra Roma-liðinu til loka leiktíðarinnar en Claudio Ranieri sagði eins og kunnugt er starfi sínu lausu í gærkvöldi. Ranieri hætti eftir mótmæli stuðningsmanna en Roma tapaði um helgina þrátt fyrir að komast 3-0 yfir í leiknum.

Vincenzo Montella er 36 ára gamall fyrrverandi framherji sem skoraði 118 mörk í 267 deildarleikjum með Roma á árunum 1999 til 2009.

Hann er að sjálfsögðu í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Roma en Montella hefur þjálfað unglingalið Roma eftir að hann lagði skónna á hilluna.

Montella var með viðurnefnið L'Aeroplanino eða "Litla flugvélin" þegar hann var upp á sitt besta en hann skoraði 14 mörk í 28 leikjum þegar Roma varð síðast ítalskur meistari 2000-2001.

Montella fær væntanlega ekki að stýra liðinu nema til vorsins ekki nema að hann geri einhver kraftaverk en eins og hefur komið fram á Vísi í dag þá hefur Carlo Ancelotti verið sterklega orðaður við þjálfarastöðuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×