Fótbolti

Fékk fimm ára bann fyrir að eitra fyrir félögunum í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giuseppe Signori var einn þeirra sem var dæmdur í dag.
Giuseppe Signori var einn þeirra sem var dæmdur í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Marco Paoloni, 27 ára ítalskur markvörður, var í dag dæmdur í fimm ára keppnisbann af aganefnd ítalska knattspyrnusambandsins, eftir að upp komst um að Paoloni hafi laumað verkjalyfi í drykki félaga sinna í hálfeik í leik með Cremonese-liðinu.

Paoloni eitraði fyrir félögum sínum í leik Cremonese á móti Paganese en hann ætlaði með því að reyna að hafa áhrif á úrslit leiksins. Málið er tengt nýjasta hneykslinu um hagræðingu úrslita í ítalska fótboltanum.

Cremonese var 2-0 yfir í hálfleik í umræddum leik á móti Paganese í ítölsku B-deildinni en Paoloni stóð í markinu allan tímann sem Cremonese vann 2-0. Paoloni spilaði aðeins einn leik til viðbótar áður en hann færði sig yfir til Benevento.

Paoloni er fyrrum unglingalandsliðsmarkvörður og varð Evrópumeistari með 19 ára landsliði Ítala árið 2003.

Aganefndin gaf út fleiri útskurði í dag. Ítalska félagið Atalanta mun þannig byrja nýtt tímabil með sex stig í mínus og fyrirliði Atalanta-liðsins, Cristiano Doni, hefur verið dæmdur í þriggja og hálfs árs keppnisbann.

Giuseppe Signori, fyrrum fyrirliði Lazio og leikmaður með landsliðinu, má heldur ekki koma að knattspyrnumálum í fimm ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×