Fótbolti

Pastore á leið til PSG - yrði sjötti dýrasti í sögunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pastore fangar marki í leik með Palermo.
Pastore fangar marki í leik með Palermo. Nordic Photos/AFP
Argentínumaðurinn Javier Pastore hefur staðfest að hann sé á leiðinni til franska knattspyrnufélagsins Paris Saint Germain. Kaupverðið á Pastore, sem leikið hefur með Palermo undanfarin ár, er talið vera um 43 milljónir evra eða sem nemur rúmum sjö milljörðum íslenskra króna.

Enn á eftir að ganga formlega frá félagaskiptunum sem munu gera Pastore að sjötta dýrasta knattspyrnumanninum frá upphafi.

„Ég get opinberlega tilkynnt að ég mun spila með Paris St Germain,“ skrifaði Pastore á heimasíðu sína www.javierpastore.com.

Parísarliðið ætlar sér stóra hluti en fjárfestar hjá Katar keyptu félagið undir lok síðustu leiktíðar. Brasilíumaðurinn Leonardo tók nýverið við stöðu yfirmanns knattspyrnumála og félagið farið mikinn á leikmannamarkaðnum í kjölfarið.

Meðal leikmanna sem gengið hafa til liðs við PSG eru kantmaðurinn franski Jeremy Menez og miðjumaðurinn Mohamed Sissoko frá Malí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×