Fótbolti

Moratti veltir risatilboði í Eto'o fyrir sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eto'o hefur náð frábærum árangri á ferlinum en þykir erfiður í umgengni.
Eto'o hefur náð frábærum árangri á ferlinum en þykir erfiður í umgengni. Nordic Photos/AFP
Massimo Moratti, forseti ítalska knattspyrnufélagsins Inter, veltir fyrir sér risatilboði rússneska félagisns Anzhi Makhachkala í kamerúnska sóknarmanninn Samuel Eto'o. Tilboðið hljómar upp á 35 milljón evrur eða sem nemur tæpum sex milljörðum íslenskra króna.

„Það hefur ekki verið gengið frá neinu. Tilboð hefur verið gert. Það er allt og sumt," sagði Moratti við ítalska fjölmiðla. Fyrr í vikunni staðfesti Marco Branca yfirmaður knattspyrnumála hjá Inter að viðræður stæðu yfir.

Samkvæmt fréttasíðunni Goal.com hefur hinum þrítuga sóknarmanni verið boðinn fjögurra ára samning með 20 milljón evrur í árslaun eða sem nemur rúmum þremur milljörðum íslenskra króna.

Eto'o varð Evrópumeistari með Barcelona árin 2006 og 2009. Hann færði sig svo um set og varð lykilmaður í sigursælu liði Inter sem vann alla titla, þar á meðal Meistaradeildina, vorið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×