Innlent

La Primavera hættir rekstri - eigendur einbeita sér að Kolabrautinni

Hjónin ætla nú að einbeita sér að Kolabrautinni í Hörpunni.
Hjónin ætla nú að einbeita sér að Kolabrautinni í Hörpunni.
Veitingastaðurinn La Primavera í Austurstræti hefur hætt rekstri. Tækjakostur og búnaður hefur verið seldur nýjum eigendum en veitingastaðnum hefur verið lokað samkvæmt tilkynningu frá eigendum veitingastaðarins.

Hjónin Leifur Kolbeinsson, matreiðslumeistari og Jónína Kristjánsdóttir, framreiðslumaður hafa átt og rekið La Primavera frá upphafi.

Þau opnuðu veitingastaðinn Kolabrautina í tónlistarhúsinu Hörpu í byrjun sumars.

Saga La Primavera hófst í Húsi verslunarinnar árið 1993 en flutti á aðra hæð í húsinu númer 9 við

Austurstræti í Reykjavík 22. mars 1996 og hefur staðurinn verið þar óslitið í rúm fimmtán ár.

Á La Primavera sameinaðist matarhefð frá Norður Ítalíu íslensku úrvalshráefni. La Primavera tók þátt í matarhátíðinni Food and fun frá upphafi.

„Auðvitað er mikil eftirsjá af La Primavera. Við höfum átt þar frábæra tíma og kynnst gríðarlega mörgum góðum og traustum viðskiptavinum. Nú er hins vegar svo komið að Kolabrautin tekur allan okkar tíma og orku. Við ákváðum því að hætta rekstri La Primavera og einbeita okkur eingöngu að Kolabrautinni. Nafnið La Primavera verður áfram í okkar eigu og aldrei að vita hvar það kann að birtast á nýjan leik eða undir hvaða formerkjum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum okkar

viðskiptavinum, starfsfólki og birgjum fyrir gott og farsælt samstarf þann tíma sem La Primavera var í rekstri," segir Leifur um ljúfsár þáttaskil í lífi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×