Fótbolti

Sneijder: Ég var í viðræðum við Manchester United

Stefán Árni Pálsson skrifar
Wesley Sneijder í leik með Inter á dögunum.
Wesley Sneijder í leik með Inter á dögunum. Mynd. / Getty Images
Wesley Sneijder, leikmaður Inter Milan, hefur nú viðurkennt að hann hafi átt í viðræðum við Manchester United á síðustu dögunum fyrir lok félagsskiptagluggans.

Sneijder tjáði sig um málið í fjölmiðlum ytra og hélt því staðfastlega fram að launakröfur hans hefðu ekki verið vandamálið.

„Málið snérist aldrei um fjárhagslegan ávinning fyrir mig, mér líður einfaldlega vel hjá Inter og er ekkert á leiðinni frá félaginu," sagði Sneijder.

„Ég fann það samt á mér að ég var nálægt því að ganga til liðs við Manchester United og hélt á tíma að ég væri á leiðinni til liðsins," sagði Sneijder sem er nú staddur með hollenska landsliðinu við æfingar.

„Ég ræddi nokkrum sinum við Manchester United. Inter var í þeirri aðstöðu að félagið varð að selja leikmann, en þegar Samuel Eto´o fór frá félaginu þá varð það ljóst að ég myndi ekki yfirgefa Inter".

„Manchester United er eitt stærsta félag í heiminum og því var þetta freistandi fyrir mig, en mig langar samt sem áður ekki að fara frá Inter".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×