Fótbolti

AC Milan hækkaði launin hjá þjálfaranum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Massimiliano Allegri.
Massimiliano Allegri. Mynd/Nordic Photos/Getty
Massimiliano Allegri, þjálfari AC Milan, er greinilega að standa sig vel í starfinu að mati yfirboðara hans því hann er búinn að fá 500 þúsund evru launahækkun. AC Milan er samt ekki tilbúið að gera nýjan samning við hann fyrr en eftir tímabilið.

500 þúsund evrur eru tæplega 80 milljónir íslenskra króna og það er ekki slæmt að fá slíka launahækkun á einu bretti. Allegri er 44 ára gamall og gerði AC Milan að ítölskum meisturum á sínu fyrsta ári með liðið. Hann þjálfaði áður Cagliari.

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, kallaði Allegri á fund til sín í síðustu viku og tilkynnti honum að hann fengi 2 milljónir evra í árslaun í staðinn fyrir 1,5 milljónir evra sem samningur hans segir til um. Nýr og lengri samningur stendur Allegri þó ekki til boða fyrr en eftir að þessari leiktíð lýkur.

AC Milan byrjaði ekki tímabilið vel en getur unnið sinn þriðja deildarsigur í röð í kvöld þegar liðið mætir Parma. AC Milan er eins og er í 7. sæti ítölsku deildarinnar fimm stigum á eftir toppliði Juventus sem hefur leikið leik meira.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×