Fótbolti

Tvö mörk frá Robinho í 4-0 sigri AC Milan á Parma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robinho fagnar öðru marka sinna.
Robinho fagnar öðru marka sinna. Mynd/AP
AC Milan hitaði upp fyrir leikinn á móti Tottenham í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar á þriðjudaginn með því að bursta Parma 4-0 í ítölsku A-deildinni í dag. Bæði toppliðin unnu sína leiki í dag því Napoli vann 2-0 útisigur á Roma.

Brasilíumaðurinn Robinho skoraði tvö síðustu mörkin í leiknum en áður hafði Antonio Cassano opnað markareikning sinn fyrir félagið og Clarence Seedorf skorað eftir undirbúning Svíans Zlatans Ibrahimovic.

„Við spiluðum vel og vissum að við þurftum að gera það í kvöld. Það var gott að komast aftur á sigurbraut fyrir Tottenham-leikinn því þar á ferðinni sterkt lið. Við erum fullir sjálfstraust og trúum því að við getum unnið hvaða lið sem er," sagði Robinho eftir leikinn.

Antonio Cassano skoraði sitt fyrsta mark fyrir AC MIlan síðan að hann kom til liðsins frá Sampdoria í um áramótin en markið kom eftir laglega sókn og sendingu Gennaro Gattuso.

Cassano lagði síðan upp bæði mörkin fyrir Robinho með þriggja mínútna millibili í síðari hálfleik en Brasilíumaðurinn hefur nú skorað 9 mörk í 22 deildarleikjum á þessu tímabili.

AC Milan hefur nú leikið tíu leiki í röð án þess að tapa og er með þriggja stiga forskot á toppi ítölsku deildarinnar eftir að Napoli vann 2-0 útisigur á Roma í kvöld. Úrúgvæmaðurinn Edison Cavani skoraði bæði mörk Napoli og er kominn með 20 mörk í deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×