Fótbolti

Inter Milan steinlá á móti Udinese - fyrsta tap Leonardo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Esteban Cambiasso í leiknum í dag.
Esteban Cambiasso í leiknum í dag. Mynd/AP
Evrópumeistarar Internazionale Milan töpuðu 3-1 á útivelli á móti Udinese í ítölsku A-deildinni í dag en leikurinn fór fram snemma dags. Inter hafði unnið fimm fyrstu leiki sína undir stjórn Brasilíumannsins Leonardo.

Dejan Stankovic kom Inter-liðinu í 1-0 eftir sextán mínútna leik og liðið hafði tögl og haldir í upphafi leiksins.

Cristian Zapata jafnaði leikinn hinsvegar á 21. mínútu og Antonio Di Natale kom Udinese yfir fjórum mínútum síðar með marki beint úr aukaspyrnu.

Maurizio Domizzi innsiglaði síðan sigur Udinese á 69. mínútu eftir varnarmistök Inter-manna.

Eftir leikinn er Internazionale í 5. sæti deildarinnar með 35 stig, sex stigum minna en toppliði AC Milan, sem á leik inni í kvöld. Udinese er tveimur stigum neðar en Inter og situr eins og er í 8. sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×