Skoðun

Heimsmet í endurvinnslu loforða

Endurvinnsla er vinsælt orð í samtímanum. Yfirleitt lýtur það að ákalli um góða umgengni um umhverfið. En endurnýting loforða er hins vegar af öðrum toga og alls ekki óþekkt.

Nú höfum við Íslendingar eignast heimsmeistara á þessu sviði. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur nú unnið þann titil með miklum sóma og sann, með endurvinnslu á loforðagaspri um atvinnusköpun sem bíði okkar handan við hornið.

Grein hennar hér í Fréttablaðinu 7. september innsiglar þann titil með rækilegum og óumdeilanlegum hætti. Í greininni setur forsætisráðherra fram enn á ný loforðin um betri tíð og blóm í haga; með þúsundum starfa í þokkabót.

Og til þess að tryggja að hún slái hin fyrri met sín er gripið til margföldunartöflunnar í stað samlagningarinnar.

Í ræðu sinni við upphaf þings á dögunum lofaði forsætisráðherra nefnilega 7 þúsund störfum. Í Fréttablaðinu 7. september eru störfin orðin 14 þúsund með kurt og pí og kynnt þannig á forsíðu blaðsins. Tvisvar sinnum taflan í margfölduninni hefur gert sitt gagn.

Fyrir hálfu ári var forsætisráðherra á ferðinni og sagði okkur að 2.200 til 2.300 störf yrðu sköpuð fljótlega. Þetta var talsvert hógværara en í októberlok í fyrra þegar ráðherrann lofaði okkur 3 til 5 þúsund störfum á nýju ári og að hagvöxtur skyldi ná 3 – 5%.

Í mars árið 2009 mætti forsætisráðherra til Viðskiptaþings og sagði frá því að „nýjar tillögur í atvinnumálum ættu að skapa um 6 þúsund ársverk, þar af 2 þúsund störf í orkufrekum iðnaði“ og bætti svo við af hæversku sinni, „svo fátt eitt sé nefnt“ (!!)

Og þessi loforð endurnýtti svo forsætisráðherrann á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins mánuði síðar.

Endurvinnsla Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á loforðum um atvinnusköpun er hláleg. Þau hafa alltaf reynst innihaldslaus, eins og tölur um atvinnuleysi sýna, tölur um fækkun starfa staðfesta og fólksflóttinn úr landi undirstrikar svo ekki verður um villst.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×