Fótbolti

Blackburn útilokar að fá Ronaldinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Enska úrvalsdeildarfélagið Blackburn segir ekkert hæft í þeim fréttum að Ronaldinho sé á leið til félagsins.

Roberto de Assis, bróðir og umboðsmaður Ronaldinho, segir að félagið hefði sett sig í samband við hann nú fyrir stuttu.

„Þetta er alls ekki satt og aðeins sögusagnir," sagði Venkatesh Rao, einn forráðamanna Blackburn. „Við erum enn að skoða leikmenn og getum tjáð okkur meira um þau mál síðar í vikunni."

Kappinn er á mála hjá AC Milan en er á leið frá félaginu nú í janúar. Félagið hefur sagst reiðubúið að láta hann fara fyrir átta milljónir evra en Ronaldinho á sex mánuði eftir af samningi sínum við félagið.

Ronaldinho hóf feril sinn með Gremio í heimalandinu og vill félagið fá hann aftur í sínar raðir.

„Við munum nú fara til Brasilíu og reyna að ná samkomulagi við Gremio en það er ekkert ákveðið enn," sagði de Assis við ítalska fjölmiðla.

„Ef við komumst ekki að samkomulagi við Gremio snýr hann aftur til Mílanó enda er hann enn leikmaður AC Milan. Það er ekkert útilokað í þessum efnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×