Skoðun

Reyndar hetjur snúi aftur

Ingimar Einarsson skrifar
Það hefur vakið furðu margra hversu lítið traust almenningur ber til ýmissa lykilstofnana þjóðfélagsins. Einungis 10% landsmanna bera mikið traust til Alþingis og litlu ofar á skalanum er Borgarstjórn Reykjavíkur sem nýtur trausts 15% íbúa. Til samanburðar má heilbrigðisþjónustan bærilega vel við una, því 73% eru ánægðir með hana og kemur hún fast á hæla Háskóla Íslands.

Nú kynnu margir að halda að sú endurnýjun sem átti sér stað á fulltrúum á Alþingi og í Borgarstjórn Reykjavíkur í síðustu kosningum hefði átt að skila sér í öflugra starfi og hæfara fólki en raunin hefur orðið á.

Fólk trúði því að hinir 27 nýju þingmenn á Alþingi myndu blása lífi í störf þingsins og bæta vinnustaðamenningu þessarar fornfrægu stofnunar. Hin unga sveit þingmanna hefur hins vegar breytt þinghaldinu, með hjálp nokkurra litlu eldri þingmanna, í hálfgerða morfískeppni. Þjóðin horfir agndofa á og skilur ekki hvaðan á sig stendur veðrið.

Á sama tíma lesum við í dagblöðunum lærðar greinar um samfélagsleg málefni eftir fólk á besta aldri sem slitið hefur þingskónum fyrir nokkru. Meðal þessara einstaklinga eru Sighvatur Björgvinsson, Þorsteinn Pálsson og Svavar Gestsson, svo fáeinir séu nefndir.

Hin unga kynslóð bregst þó ekki við þessum skrifum, því annað hvort les hún ekki blöðin eða telur sig vanmegnuga til að etja kappi við slíka garpa. Síðari ágiskunin virðist sennilegri því þess háttar greinar verða ekki skrifaðar nema á grunni áratuga reynslu og mikillar þekkingar. Vinnustaðurinn Alþingi hefur einfaldlega brugðist í því hlutverki sínu að skila hinum sögulega arfi til hinnar ungu kynslóðar þingmanna sem nú á sæti á þjóðarsamkomunni. Úr þessu verður trauðla bætt nema hinar reynslumiklu hetjur snúi aftur, að minnsta kosti tímabundið, og í framtíðinni verði tryggt að meira jafnvægi ríki milli kynslóðanna á þessum vettvangi en nú er.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×