Skoðun

Um þjónustu við börn

Sóley Tómasdóttir skrifar
Mér er bæði ljúft og skylt að svara opnu bréfi Sigrúnar Eddu Lövdal sem birtist í Fréttablaðinu í gær um fyrirhugaðar viðræður borgarinnar við ríkið um þjónustu við ung börn.

Í dag er opinber þjónusta tryggð fyrir öll börn, frá fæðingu til 18 ára aldurs, fyrir utan 15 mánaða tímabil á fyrstu tveimur æviárunum. Dagforeldrar gegna mikilvægu hlutverki fyrir börn og foreldra á þessum aldri, vinna afar gott starf og brúa bilið með ágætum. Þjónustan er þó ekki á forræði hins opinbera. Sveitarfélögin greiða niður þjónustuna, þau setja henni ákveðinn ramma og hafa með henni eftirlit, en þau veita ekki þjónustuna.

Það er rétt hjá Sigrúnu Eddu, að tillaga mín laut í raun ekki að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, það er réttilega brúað með þjónustu dagforeldra og einkarekinna ungbarnaleikskóla. Tillagan laut að því að brúa bilið í opinberri þjónustu, því það er sannarlega til staðar.

Það er staðföst skoðun mín að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, eigi að bjóða upp á þjónustu fyrir öll börn, frá fæðingu þar til sjálfræði er náð. Ástæðan er þessi: Opinber þjónusta er hluti af samfélagslega ábyrgu velferðarsamfélagi. Hún er sá hluti þjónustunnar sem við viljum reka sameiginlega, við kjósum okkur fulltrúa til að móta stefnu og sinna eftirliti og við greiðum fyrir hana að stærstum hluta með framlagi í sameiginlegan sveitarsjóð.

Til viðbótar við þessa opinberu þjónustu eru svo ýmsir valkostir sem margir kjósa að nýta sér af ýmsum ástæðum og því vil ég árétta að ég er ekki að leggja til að þjónusta dagforeldra leggist af. Hún er sjálfsagður og eðlilegur valkostur sem má endilega vera áfram til staðar fyrir þá foreldra sem það kjósa.

Ég bind vonir við að viðræðurnar skili þeim árangri sem fyrst að sameiginlega axli ríki og sveitarfélög þá ábyrgð að tryggja opinbera þjónustu fyrir öll börn, svo foreldrar hafi raunverulegt val.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×