Skoðun

Enn betri reglugerð

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Árið 2010 hófst endurskoðun byggingarreglugerðar á grundvelli nýrra mannvirkjalaga en í nefndinni áttu sæti einn verkfræðingur og tveir arkitektar. Því næst voru 60 sérfræðingar tilnefndir af rúmlega 15 hagsmunaaðilum og átta samráðshópar fjölluðu um mismunandi kafla en í hverjum hópi voru haldnir minnst átta fundir. Um er að ræða yfirgripsmikið verk sem margir hafa komið að og lá reglugerðin fyrir um síðustu áramót í núverandi mynd.

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi og brýnt að vel takist til. Reglugerðin endurspeglar metnað, ekki síst í þágu algildrar hönnunar og aðgengis eins og best gerist. Hljóðvistarkröfur eru auknar og áhersla á gæði og eftirlit eykst til muna. Sérstakan kafla er að finna um stúdentaíbúðir sem gegna óumdeilanlega sérstöðu á íbúðamarkaði. Á yfirstandandi ári hafa fjölmargir kynningarfundir verið haldnir og mikil umræða hefur orðið um reglugerðina í fjölmiðlum og meðal hagsmunasamtaka. Þetta er vel og er mikilvægt að hlusta eftir þeim röddum sem fram hafa komið. Ég tel í því ljósi rétt að gera nokkrar vel rökstuddar breytingar á reglugerðinni, bæði efnislegar en ekki síður tæknilegar, sem og breytingar er varða nálgun og sveigjanleika.

Með þessum breytingum er þess vænst að kostnaðaraukinn sem af heildarendurskoðuninni stafar verði í lágmarki. Ég hef tekið ákvörðun um að endurskoða ákvæði er varða einangrun byggingarhluta en umræðan hefur leitt í ljós að meiri tíma þarf til samráðs áður en frekari skref verði tekin í átt að betri nýtingu orkuauðlinda okkar varðandi húshitun.

Einnig verður liðkað enn frekar fyrir ákvæðum um rýmisstærðir svo að hægt sé að byggja minni íbúðir. Almennt má segja að breytingarnar feli í sér meiri sveigjanleika fyrir hönnuði og arkitekta til að ná markmiðum um algilda hönnun og aðgengi. Í umræðunni hefur sérstaklega borið á áhyggjum af kostnaðarauka vegna ákvæða um algilda hönnun en með breytingunum verða þau ákvæði skýrð betur og lagfærð til að auka hagkvæmni og tryggja skýrleika og skilvirkni og draga úr kostnaðaráhrifum.

Ég vænti þess að þeir fjölmörgu aðilar sem styðjast við byggingarreglugerð í sínu daglega starfi taki höndum saman um að framkvæmdin verði til góðs fyrir almannahagsmuni.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×