Fótbolti

Van Persie: Balotelli hefur allt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollenski framherjinn Robin van Persie hrósaði Mario Balotelli á blaðamannafundi fyrir vináttulandsleik Hollands og Ítalíu sem fer fram í Amsterdam ArenA á morgun. Mario Balotelli byrjaði frábærlega með AC Milan um helgina eftir að ítalska félagið keypti hann frá Manchester City í síðustu viku.

„Ég hef alltaf verið aðdáandi Balotelli. Hann er fljótur, sterkur og hugrakkur. Hann hefur allt sem framherji þarf til að ná árangri á hæsta stigi," sagði Robin van Persie.

„Hann er líka virkilega viðkunnanlegur náungi. Við töluðum saman nokkrum sinnum þegar hann spilaði enn með Manchester City," sagði Van Persie og bætti við:

„Það er til fólk sem lítur út fyrir að vera viðkunnanlegt en svo kemur allt annað í ljós þegar þú kynnist því. Balotelli er algjör andstæða þess. Hann lítur ekki út fyrir að vera góður strákur en hann er það," sagði Van Persie.

Mario Balotelli skoraði tvö mörk í fyrsta leik sínum með AC Milan og fær væntanlega að spila með ítalska landsliðinu á móti Hollandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×