Skoðun

Af hverju er ég leikskólakennari?

Haraldur F. Gíslason skrifar
Ég var frekar áttavilltur unglingur. Hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór var ekki mikið sem ég spáði í. Sérstaklega eftir að það varð ljóst að ég yrði seint atvinnumaður í knattspyrnu.

Ég vil reyndar meina það að eina ástæðan fyrir því að ég varð ekki knattspyrnustjarna er sú að ég á afmæli í desember. Rannsóknir hafa sýnt að flestir þeir sem ná árangri í knattspyrnu eru fæddir snemma á árinu. Ég er ekki viss um að fyrrum þjálfarar mínir séu sammála þessari kenningu minni en það er nú önnur saga.

Úr knattspyrnunni lá leið mín í tónlistina og þar fann ég mig vel. Ég stofnaði hljómsveit með vinum mínum og heimsfrægð var á næsta leiti. Rokkið átti vel við mig og við félagarnir þurftum ekkert mikið til að lifa. Bara smá vasapening endrum og sinnum fyrir brauði í föstu og fljótandi formi.

Við vorum á leiðinni út í hinn stóra heim til að „meika“ það. Okkur vantaði bara smá pening fyrir farmiðanum. Mér datt í hug að sækja um starf í leikskóla. Ég var ráðinn. Ég lét alla vita sem vildu að ég ætlaði nú bara að stoppa þarna í nokkra mánuði á meðan ég væri að safna mér fyrir „meikfarmiðanum“.

Leikskólakennari á staðnum sagði mér að hún hefði sagt það sama fyrir 20 árum og líklega færi eins fyrir mér því leikskólakennarastarfið væri skemmtilegasta og mest gefandi starf í heiminum. Mér fannst hún vera klikkuð. Hún hafði hins vegar algjörlega rétt fyrir sér.

Kostaboð

Starfið náði að heilla mig upp úr skónum. Það var svo mikið frelsi. Það var svo mikið af verkefnum. Börnin voru svo skemmtileg. Mest hafði ég gaman af þeim börnum sem þurfti að hafa svolítið fyrir. Þau áttu alltaf sérstakan stað í mínu hjarta. Mér var oft boðið gull og grænir skógar af þessum litlu vinum mínum: „Halli, af hverju kemur þú ekki og gistir heima hjá mér um helgina?“ Sagði einn snillingurinn einu sinni og bætti við: „Þú getur bara sofið á milli mömmu og pabba. Þú mátt borða eins mikið Lucky charms og þú vilt. Svo horfum við bara á teiknimyndir allan morguninn á meðan mamma og pabbi sofa“.

Hvernig er hægt að neita slíku kostaboði?

Sem betur fer tókst mér að hafna tilboðinu án þess að særa þennan vin minn. Mér gekk vel í starfi. Ég fékk hrós og hvatningu frá yfirmanni mínum. Hún leyfði mér að þróast í starfi og leiðbeindi mér inn á réttar brautir.

Eftir fimm ára starf í leikskóla ákvað ég að sækja um í Kennaraháskóla Íslands og fékk inngöngu. Hugsunin um krefjandi háskólanám var vissulega íþyngjandi.

En áhyggjur mínar reyndust óþarfar. Tíminn í „Kennó“ var einn besti tími lífs míns og þótt námið væri oft erfitt og verkefnin í skólanum mörg og krefjandi, gekk mér vel í námi.

Leikskólakennaranám er frábært nám sem sinnt er af alúð bæði í Háskólanum á Akureyri og í Háskóla Íslands. Eftir útskrift hóf ég aftur störf á sama leikskóla og ég starfaði á áður en ég fór í Kennaraháskólann og nú með með meiri ábyrgð sem deildarstjóri. Starfið hélt áfram að veita mér gleði þó ábyrgðin yrði meiri.

Það var frábært að geta nú nýtt sér alla sérfræðiþekkinguna sem maður fékk í náminu til þess að verða fagmaður og auka gæði kennslunnar. Ég á mörgum mikið að þakka sem leiðbeindu mér á réttar brautir. Bæði kennurum, samstarfsmönnum sem og börnum og foreldrum.

Eftir að hafa starfað í leikskóla í 12 ár ákvað ég að bjóða mig fram sem formaður Félags leikskólakennara. Ég vildi reyna að gera gagn á þeim vettvangi. Starf formanns FL er krefjandi og skemmtilegt, en ég sakna alltaf starfsins í leikskólanum. Við val á námi og starfi þarf maður að meta allar hliðar. Kannski ert þú frábært efni í leikskólakennara án þess að hafa hugmynd um það.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×