Innlent

Mannmergðin truflaði ekki slökkvistarf

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Fólk virðir brunann fyrir sér í Skeifunni í gærkvöldi.
Fólk virðir brunann fyrir sér í Skeifunni í gærkvöldi. Vísir/Andri Marinó
Slökkviliðið gerir ráð fyrir því í sínum áætlunum að fólk safnist saman í kringum stórbruna. Þetta segir Ólafur Ingi Grettisson, innivarðsstjóri slökkviliðsins í Skógarhlíð.

„Þetta er alþekkt um allan heim, við yrðum eiginlega hissa ef þetta gerðist ekki,“ útskýrir varðstjórinn í samtali við Vísi.

Ólafur segir að mannmergðin í Skeifunni hafi í raun ekki truflað slökkvistarf.

„Þegar fólk safnast saman í kringum bruna getur það haft áhrif, til dæmis þegar verið er að ferja tæki á staðinn. En í gær höfðu áhorfendur ekki teljandi áhrif á starfið. Það var allavega ekki stóra atriðið í þessu.“

Ólafur segir samt að slökkviliðið óski þess að fólk fari að fyrirmælum og virði það þegar beðið sé um að halda sig í fjarlægð.

„Í gær reyndum við að koma skilaboðum á framfæri að fólk færi ekki nálægt brunanum. Það urðu sprengingar í einu húsinu og síðan er efnalaug þarna. Við svoleiðis aðstæður brenna óþekkt efni og maður þarf að hafa varann á,“ segir hann.

Vísir/Andri Marinó
Þrátt fyrir þau skilaboð slökkviliðsins og lögreglunnar var mikill fjöldi fólks sem lagði leið sína í Skeifuna. Lögregla er ekki með tölu á hve margir fylgdust með brunanum og störfum slökkviliðsins.

„Þetta voru einhver hundruð manns. Það var alveg ofboðslega mikið af fólki,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Sem betur fer fengum við nú aðstoð frá Securitas og björgunarsveitunum. Það var ómetanlegt hjá þeim.“

Í fyrstu var svæðið sem lokað var ekki stórt en fljótlega var það þó víkkað út. Þá vildu margir hverjir þó ekki færa sig í fyrstu.

„Við færðum lokanir okkar út og lokuðum stærra svæði. Þá þurftum við að ýta aðeins við fólki. Það var ekki alveg tilbúið að bakka og vildi vera sem næst þessu,“ segir Jóhann.

Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó

Tengdar fréttir

Hætt við að hús í Skeifunni hrynji

Stórhætta er á brunastað og líklegt að þök hrynji en þau eru byggð með strengjasteypu. Eins og að vera staddur í styrjöld, segir slökkviðliðsvarðsstjóri.

Eldurinn kviknaði í Þvottahúsi Fannar

"Það var unnið í þvottahúsinu í dag en enginn var við störf þegar eldurinn kom upp. Þar er náttúrulega mikill eldsmatur, þar sem við erum að þvo lín fyrir hótel og öldrunarheimili," segir Þorvarður Helgason, verkstjóri hjá Fönn.

„Við munum rísa úr öskunni fljótt“

Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Pennans, sem á og rekur verslunina Griffil, gengur út frá því að allt sé farið sem þar sé innandyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×