Skoðun

Er vatnið í kringum Ísland salt?

Bryndís Kristjánsdóttir skrifar
Þetta er raunveruleg spurning sem rútubílstjóri í ferð með útlendinga fékk nú á dögunum. Spurningin kom frá „leiðsögumanninum“ sem var útlendingur og hafði aldrei komið til Íslands áður! Sem betur fer talaði þessi bílstjóri annað tungumál en bara íslensku og gat því svarað spurningunni. En hvorki hann né „leiðsögumaðurinn“ sögðu ferðamönnunum frá því hvernig hafstraumunum í kringum landið er háttað sem leiðir til þess að Ísland er byggilegt og fiskimiðin jafn gjöful og raun ber vitni. Enda ekki í verkahring bílstjórans að fræða útlenda „leiðsögumenn“ svo þeir geti sagt fólkinu, sem þeir eru að fara með um landið, rétt og vel frá landinu og þjóðinni sem þar býr. Það á eingöngu að vera í verkahring leiðsögumanna sem hlotið hafa viðurkennda fagmenntun á Íslandi.

Umræddur rútubílstjóri hafði frá fleiru ótrúlegu að segja úr ferð sinni með útlenda „leiðsögumanninn“ sem aldrei hafði komið hingað áður, til dæmis að hann vildi fá staðfestingu bílstjórans á því að í öllum jöklum byggju útilegumenn með fjölskyldur sínar. Bílstjórinn reyndi auðvitað að malda í móinn en „leiðsögumaðurinn“ sagði ferðafólkinu engu að síður að svona háttaði til á Íslandi.

Öryggi og landvernd

Þessi dæmi eru bara tvö af ótal slíkum sem við leiðsögumenn heyrum á ferðum okkar með ferðamenn um landið. Hér eru alls konar „leiðsögumenn“, útlendir sem innlendir, á ferð með stóra og smáa hópa ferðamanna og guð má vita hvaða bull þeim er sagt í ferðunum, því oft er ekki einu sinni innlendur bílstjóri með í ferð. Að ekki sé minnst á að ferðamenn, sem þannig háttar til með, virðast ekki fá neina leiðsögn í því hvernig ganga þarf um landið svo vernda megi viðkvæman gróður, fuglar á eggjum séu ekki truflaðir eða að þeir fari sér ekki að voða á hættulegum stöðum – sem eru óteljandi á Íslandi.

Í minni síðustu ferð sá ég rennandi blauta konu í Reynisfjöru; væntanlega hafði enginn sagt henni frá hættulegu öldunum þar og ein þeirra því gripið hana. Gott að ekki fór verr í þetta sinn. Í Dyrhólaey sá ég svo ferðamannahóp sem fór beinustu leið yfir varnargirðingu og út á ystu klettabrún. Hópurinn virti þannig að vettugi aðgerðir sem við á Íslandi erum að grípa til til varnar gróðri og fuglum – og til að stuðla að öryggi þeirra sjálfra.

Vönduð ferðaþjónusta

Einföld leið til að koma í veg fyrir bullið, átroðninginn og slysahættuna er að ferðamenn fái vandaða fræðslu um landið og hópar séu alls ekki á ferð með öðrum en fagmenntuðum leiðsögumönnum. Einhverjir hafa reynt að koma þeim kvitti á kreik að ekki séu til nógu margir slíkir í landinu, sem er fjarri sannleikanum. Hjá Félagi leiðsögumanna er skrá yfir rúmlega 600 fagmenntaða félagsmenn og þeim til viðbótar er stór hópur sem ekki hefur starfað við fagið þar sem ekki var vinnu að fá. Þar sem ferðaþjónustan er nú orðinn sá máttugi stólpi í íslensku samfélagi sem raun ber vitni þá þarf að gæta þess afar vel að hún viðhaldist sem slík og eflist. Það gerist ekki nema með góðri innri uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landinu öllu og þar verða fagmennska og vönduð vinnubrögð að ráða.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×