Skoðun

Ekki þú líka – Sigurjón!

Svavar Gestsson skrifar
Það er alls staðar sótt að Ríkisútvarpinu þessa dagana. Í fjárlagafrumvarpinu, í 365-miðlunum, í Morgunblaðinu. Allt þetta þrennt er skýranlegt þó að ég sé að vísu ósammála því: Ríkissjóð vantar peninga af því að verkefnin eru mörg og af því að það er búið að lækka skattana um nokkra tugi miljarða. Það er skýranlegt með 365 miðlana af því að þá vantar pláss; þar eru fjárhagslegar blikur á lofti. Og í þriðja lagi er það rökrétt að Morgunblaðið sé á móti Ríkisútvarpinu; fyrir því eru markaðsástæður og pólitískar ástæður. Og nú er Sigurjón ritstjóri þessa blaðs farinn að tala um að Ríkisútvarpið fái beingreiðslur. Æi! Ekki þú líka – Sigurjón. Skattarnir standa undir greiðslum til samfélagsins, sjúkrahúsanna, skólanna, veganna. Skattarnir eru gjaldið sem við viljum greiða fyrir að búa í siðuðu menningarsamfélagi. Beingreiðslur.

Má ég í allri vinsemd minna á að Ríkisútvarpið er menningarstofnun. Það þrífst ekki nema sem hluti af samfélaginu. Íslenskt samfélag þrífst ekki án Ríkisútvarpsins. Þættirnir um Vesturfarana hefðu ekki orðið til nema vegna þess að hér er Ríkisútvarp, hvorki þættir Egils né Andra. Má ég spyrja um fleiri atriði eins og táknmálsfréttir, sinfóníutónleika, útvarpssögurnar, stöðugar veðurfréttir? Ríkisútvarpið sem menningarstofnun er mikilvægt eins og Sinfónían, Þjóðleikhúsið, Landsbókasafnið, Þjóðskjalasafnið. Allir skilja að þessar stofnanir eru hluti af þeim veruleika sem við viljum búa við, að þær eru menningarstofnanir. Ríkisútvarpið er hluti af þjóðmenningunni; það er atlaga að þjóðmenningunni að ráðast að Ríkisútvarpinu. Var ekki einhver að taka um þjóðmenningu?

Má ég enn fremur minna á að menntamálaráðherrar Framsóknarflokksins, þeir Ingvar Gíslason og Vilhjálmur Hjálmarsson, stóðu alltaf með Ríkisútvarpinu.

Það sem má gera núna er þetta: Látið þið Ríkisútvarpið fá útvarpsgjaldið að fullu og losið stofnunina við gamla lífeyrisbyrði.

Sýnum sanngirni. Það var nefnilega fín fyrirsögnin á leiðaranum í vikunni: Heilbrigðiskerfið skapar verðmæti. Eins er það með Ríkisútvarpið; menningin er líka verðmæti.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×