Fótbolti

Napólí og Roma halda sínu striki

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Jose Maria Basanta fagnar marki sínu fyrir Fiorentina í dag
Jose Maria Basanta fagnar marki sínu fyrir Fiorentina í dag vísir/getty
Fimm leikjum er lokið í ítölsku knattspyrnunni í dag. Napólí vann fjórða sigur sinn í röð og Roma eltir topplið Juventus.

Góð sigling hefur verið á Napólí að undanförnu. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig í 22 leikjum og bíður þess að Roma misstígi sig í öðru sætinu.

Napólí fékk Udinese í heimókn í dag og vann öruggan 3-1 sigur. Dries Mertens kom Napólí yfir á 8. mínútu og á 21. mínútu bætti Manolo Gabbiadini við marki.

Cyril Thereau minnkaði muninn sex mínútum síðar en hann varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 14. mínútu seinni hálfleiks.

Roma er fjórum stigum á undan Napólí í öðru sæti og sjö stigum á eftir meisturum Juventus. Roma þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum á Cagliari í dag.

Adam Ljajic kom Roma yfir átta mínútum fyrir hálfleik en Leandro Paredes bætti við marki fyrir Roma fimm mínútum fyrir leikslok og reyndist það sigurmarkið því Paul Jose M'Poku minnkaði muninn á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Úrslit dagsins:

Fiorentina – Atalanta 3-2

Empoli – Cesena 2-0

Cagliari – Roma 1-2

Sampdoria – Sassuolo 1-1

Napoli – Udinese 3-1

Inter og Palermo mætast í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×