Skoðun

Miðborg í blóma

Jakob Frímann Magnússon skrifar
Undanfarin ár hafa endurbætur og fjárfestingar í miðborginni verið meiri en nokkru sinni fyrr og er þá langt til jafnað.

Langþráðar endurbætur á Hverfisgötu austan Klapparstígs eru að baki og verður að óbreyttu lokið 2016. Framkvæmdum á Hjartareit / Hljómalindarreit verður lokið upp úr næstu áramótum, en til að svo geti orðið þarf að tryggja opnar akstursleiðir og óheft aðgengi og því bíða endurbætur og framkvæmdir á vestari hluta Hverfisgötu næsta árs.

Umtalsverðar framkvæmdir eru að hefjast í nágrenni Hörpu, þ.m.t. við umfangsmikla fimm stjörnu hótelbyggingu. Bílastæði neðanjarðar, sumpart beintengd bílastæðum Hörpukjallarans, verða sem næst 1.000 er allt verður saman lagt. Hins vegar fækkar nokkuð ofanjarðarstæðum í miðborginni, þ.m.t. við hlið Tollstjórahússins sem þegar hafa verið skermuð af.

Vert er þá að minna á bílastæði í gamla Kolaportshúsinu, í Hörpukjallaranum, í Grjótaþorpi á horni Vesturgötu og Mjóstrætis, í Traðarkoti á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs, á Skólavörðustíg við Bergstaðastræti, á Hverfisgötu við horn Vitastígs og í Stjörnuporti gegnt Laugavegi 91. Í öllum þessum húsum er að jafnaði að finna gnótt bílastæða auk þeirra fjölmörgu stæða sem dreifð eru um gjörvalla miðborg.

Sumargötur sem ráðgerðar eru frá maí til septemberloka verða á Laugavegi frá Vatnsstíg (vestan Frakkastígs) að Bankastræti, neðst á Skólavörðustíg, frá Bergstaðastræti að Bankastræti, Pósthússtræti og Austurstræti. Opið verður fyrir umferð og aðföng til hádegis hvern virkan dag.

Á hinum fjölmörgu torgum borgarinnar verður líf og fjör. Ber þar helst að nefna KRÁS, matarmarkaðinn vinsæla á Fógetatorgi sem verður opinn allar helgar í júlí og ágúst, reglubundnar lifandi tónlistarveislur á Ingólfstorgi, fjölbreytilega starfsemi á Torgum í biðstöðu, reglubundna viðburði Götuleikhússins og Hins hússins og reglubundnar uppákomur tengdar Löngum laugardögum sem eru að jafnaði fyrstu laugardagar hvers mánaðar.

Hér hefur verið stiklað á stóru. Í næstu grein verður nánar farið yfir framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í miðborginni á komandi mánuðum og misserum.

Með bestu óskum um gleðilegt og sólríkt miðborgarsumar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×