Erlent

Aukin harka í kappræðum demókrata

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sanders og Clinton eiga í harðri baráttu.
Sanders og Clinton eiga í harðri baráttu. vísir/EPA
Hiti var í kappræðum forsetaefna demókrata í Bandaríkjunum, Bernie Sanders og Hillary Clinton, aðfaranótt mánudags sem fóru fram í borginni Flint í Michigan-ríki.

Ræddu þau meðal annars um bifreiðaiðnaðinn, sem einkennir ríkið, og sakaði Clinton Sanders um að hafa reynt að drepa iðnaðinn þegar hann kaus á móti fjárhagsaðstoð fyrir stóra framleiðendur í kjölfar efnahagshrunsins. Skaut Sanders þá til baka á Clinton og sagði „vini hennar á Wall Street“ hafa eyðilagt hagkerfi Bandaríkjanna. 

Þrátt fyrir að aukin harka hafi verið í kappræðum þeirra frá því sem áður hefur verið komust þær ekki með tærnar þar sem kappræður repúblikana í síðustu viku höfðu hælana, en þar fann Donald Trump sig knúinn til að svara ásökunum Marco Rubio um að hann væri með lítinn getnaðarlim. „Ég ábyrgist það að það er ekkert vandamál, ábyrgist það,“ hrópaði Trump.

Clinton hefur nú forskot á Sanders í baráttunni. Hefur hún aflað sér stuðnings 672 landsfundarfulltrúa en Sanders 477. Alls þarf 2.383 til að vinna. Þá hefur Trump 384 fulltrúa hjá repúblikönum en næsti keppinautur hans, Ted Cruz, 300. Alls þarf 1.237 fulltrúa  til að tryggja sér útnefninguna.

Báðir flokkar kjósa í Michigan og Mississippi í dag en þar að auki kjósa repúblikanar á Havaí og í Idaho. Kannanir benda til þess að Clinton og Trump vinni öll fylkin fyrir utan Havaí þar sem engar kannanir hafa verið gerðar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×