Handbolti

TV2 í Danmörku: Leikmenn björguðu starfi Guðmundar í Ríó

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur gefur skipanir í úrslitaleiknum.
Guðmundur gefur skipanir í úrslitaleiknum. vísir/anton
TV2 í Danmörku slær því upp á vef sínum að til greina hafi komið að reka Guðmund Guðmundsson úr starfi þjálfara danska handboltalandsliðsins aðeins níu dögum áður en liðið vann til gullverðlauna á leikunum.

Hins vegar hafi leikmenn slegið þá hugmynd af borðinu og þar með bjargað starfi Guðmundar.

Guðmundur vildi sjálfur ekki tjá sig um innihald fréttarinnar þegar Vísir hafði samband við hann síðdegis. Hann tjáði sig heldur ekki við TV2 um málið.

Samkvæmt fréttinni munu forráðamenn danska handknattleikssambandsins hafa fundað með sex reyndustu leikmönnum liðsins - án Guðmundar. Var það daginn eftir leik Dana og Króata í riðlakeppninni, sem Danir töpuðu.

Á þeim fundi hafi leikmenn verið spurðir að því hvort að þeir vildu Guðmund burt úr starfi landsliðsþjálfara en að því hafi leikmennirnir hafnað.

Ulrik Wilbæk, fyrrverandi landsliðsþjálfari Dana og núverandi íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, segir að þetta sé einfaldlega lygi.

„Þetta er lygi. Mér líkar ekki við orðið lygi en það stóð aldrei til að reka neinn,“ sagði Wilbæk við TV2.

Sjá einnig: Ólympíumeistarinn Guðmundur: Mikilvægt að láta ekki toga sig út og suður

Hann neitar því ekki að hafa fundað með hópi leikmanna. „Já, þegar einhver biður um fund þá held ég fund. Og við höldum marga fundi á svona mótum.“

Wilbæk sagði þó að það hefði aldrei komið til tals að reka þjálfarann. „Nei, það var aldrei rætt. Spurningar voru bornar upp, þeim var svarað og svo haldið áfram. Það var talað um að bæta sig á þessum fundum og eftir þá voru allir ánægðir.“

TV2 telur sig hafa heimildir fyrir því að starf Guðmundar hafi hangið á bláþræði en enginn af þeim leikmönnum sem rætt var við vildi tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×