Eldur kom upp í leiguíbúð sex ferðamanna við Kirkjuteig snemma í gærkvöldi. Íbúðin skemmdist mikið og voru ferðamennirnir því á vergangi eftir að slökkvistarfi lauk. Slökkviliðsmenn brugðu á það ráð að bjóða fólkinu með sér á slökkvistöðina á jólanótt.
„Þetta er nú ekki svona það sem við gerum dagsdaglega. En í tilefni þess að það voru jól þá verður maður aðeins meyrari og mýkri,“ segir Rúnar Helgason, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. „Næturvaktin tók þau upp á sína arma, þar til Rauði krossinn kom og greiddi götu þeirra endanlega,“ bætir hann við.
Eldurinn kom upp um klukkan hálf átta. Ferðamennirnir komu hingað til lands til að fagna jólunum á Íslandi en íbúðin hafði verið leigð í gegnum Air BnB. Tveir reykskynjarar voru í íbúðinni en hvorugur virkaði; annar þeirra var án rafhlöðu og hinn gamall og óvirkur.
Slökkviliðið var svo aftur kallað út á tólfta tímanum en þá hafði verið tilkynnt um eld á bekk við íbúðarhús á Álftanesi. Töluverður reykur barst inn í íbúð í gegnum þakskegg hússins en slökkviliðið slökkti eldinn og reykræsti íbúðina.
Þá sinnti slökkviliðið einnig vatnsleka sem kom upp í Ármúla í nótt.
Þá var einnig mikið að gera í sjúkraflutningum í gærkvöldi og í nótt en sjö sjúkrabílar sinntu stöðugum útköllum til miðnættis.
Innlent