Skoðun

Rólegt sumar í ríkisstjórn

Steingrímur J. Sigúfsson skrifar
Samkvæmt vef stjórnarráðsins fundaði ríkisstjórn Íslands síðast þann 30. júní sl. þegar þetta er ritað hinn 10. ágúst. Sumarið hefur því sannarlega verið rólegt á þeim bænum, rúmir fjörutíu dagar liðnir frá síðasta fundi.

Sjálfsagt telja einhverjir þetta til marks um hvað allt sé nú í góðu gengi á landinu, engin vandamál eða aðkallandi verkefni sem takast þurfi á við. Bent hefur verið á, í öðru samhengi að vísu, að ríkisstjórnin sé svo að segja mynduð um ekki neitt og geti þar af leiðandi ekki slitnað á neinu. Taka má undir hvort tveggja að nokkru leyti en alls ekki öllu.

Er það raunverulega svo að ekki sé nein þörf á forustu um landsmálin? Eru engin þau viðfangsefni uppi sem kalla að minnsta kosti á að ríkisstjórn hittist og ræði málin?

Hvað með að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óski eftir fundi í ríkisstjórn til að ræða grafalvarlega stöðu sem blasir við sauðfjárbændum í haust og þar með byggð á heilum landsvæðum?

Hvað með að ráðherra ferðamála óski eftir fundi til að ræða löngu tímabæra stefnumótun í greininni?

Hvað með að ríkisstjórnin hittist til að ræða stefnu sína í peningamálum í stað þess að ráðherrar tali í austur og vestur?

Hvað með að ríkisstjórnin hittist og kynni sér vel siðareglur ráðherra og þingmanna?

Hvað með fund um fiskeldisáformin þar sem við blasir upplausnar- og ófremdarástand?

Svona mætti lengi áfram telja. Nú getur að vísu margt verra hent eitt land en að léleg ríkisstjórn geri lítið. Belgar grínast gjarnan með það að þeim hafi vegnað vel þetta rúma ár sem þeir voru alveg án ríkisstjórnar sökum stjórnmálkreppu eða pattstöðu. En að gamni slepptu þá gengur slíkt ekki upp nema þá í skamman tíma og sá tími er glataður til uppbyggilegra verka. Ríkisstjórn sem ekki fundar sendir með því skilaboð um sjálfa sig sem segja meira en mörg orð.

Höfundur er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×