Skoðun

Augna­blik – Skila­boð til lands­fundar Vinstri grænna

Hjörtur Hjartarson skrifar

Nýjar stjórnarskrár verða til í kjölfar áfalla. Það er söguleg staðreynd. Þá verða augnablik þar sem samfélög eru reiðubúin að líta í eigin barm af alvöru og einlægni og spyrja grundvallarspurninga: Hvers konar samfélag viljum við? Það gerðist í kjölfar Hrunsins á Íslandi.

Landsmenn notuðu tækifærið, og þeim lukkaðist að endurnýja og semja sér eigin stjórnarskrá í skugga hamfaranna. Það var mikil gæfa fyrir íslenskt samfélag, náttúruna og fólkið í landinu. Hin nýja stjórnarskrá og stjórnarskrárferlið var og er leið til þess að sættast við áfallið og halda áfram með nýja von í brjósti. Í því ljósi ber að umgangast stjórnarskrármálið.

Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hefur þegar farið fram. Því er tómt mál að tala nú um heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Andrúmsloft eins og það sem fæddi af sér nýju stjórnarskrána verður heldur ekki endurskapað löngu eftir að stjórnarskráraugnablikið er liðið og íslensk stjórnmál aftur komin í gamla farið.

Frumvarp að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá lá fyrir fullbúið af hálfu Alþingis í mars 2013. Frumvarp sem var efnislega í samræmi við vilja 2/3 hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að hin nýja stjórnarskrá yrði að veruleika með hroka og yfirgangi. Og var því miður látinn komast upp með það. Mál er að setja andstæðingum stjórnarskrárbreytinga stólinn fyrir dyrnar.

Því heiti ég á landsfund Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að taka höndum saman við Pírata og Samfylkingu og ganga til liðs við íslenskan almenning, náttúru landsins og stjórnarskrá fólksins.

Afdráttarlaust.

Höfundur er stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu.




Skoðun

Sjá meira


×