Skoðun

Tækifæri og áskoranir í menntamálum

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Öflugt menntakerfi er forsenda þess að samfélag okkar haldi áfram að dafna og þróast. Því er lögð á það áhersla í nýjum stjórnarsáttmála að blása til sóknar á þessum vettvangi, efla enn frekar þá þætti sem standa styrkum stoðum og takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Miklar tækniframfarir eiga sér nú stað og munu til framtíðar hafa áhrif á öll störf, starfshætti og samfélag. Nemendur okkar þurfa að vera í stakk búnir til að takast á við ný störf sem grundvallast á sköpun, færni og hæfni til að leysa vandamál. Mikilvægt er að menntakerfið taki mið af þessum breytingum og myndi hvetjandi námsumhverfi. Þess vegna er lagt mikið upp úr starfsmenntun og nýsköpun í nýjum stjórnarsáttmála til að íslenskt samfélag geti nýtt sér þessa framþróun. Hér verðum við að að skipa okkur í fremstu röð og horfa til ríkja sem standa hvað best er stefnumótun varðar.

Styrkja þarf umgjörð skólakerfisins og stöðu kennara. Yfirvofandi fækkun í kennarastétt er mikil áskorun. Margir kennarar eru að komast á eftirlaunaaldur og margir kjósa að starfa á öðrum vettvangi en í menntakerfinu. Á meðan sækja of fáir í kennaranám. Samfélagið verður að bregðast við þessari þróun. Hvers vegna velja kennarar að starfa við annað en það sem þeir mennta sig til? Hérna þarf að greina orsakir svo unnt sé að bregðast við í samráði við kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur. Kennaraskortur er reyndar áhyggjuefni víða, t.d. á Norðurlöndunum.

Þegar tekið er mið af reynslu annarra þjóða er margt sem bendir til þess að með skipulegum langtíma­aðgerðum verði unnt að bæta stöðu íslensks menntakerfis. Ein lykilforsenda er að hafa áreiðanlegar upplýsingar til þess að geta áttað sig á stöðu mála og dregið ályktanir. Þess vegna hefur verið sett af stað verkefni um ítarlega greiningu á stöðu og þróun menntakerfisins. Meginhlutverk vinnunnar er að stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu samfélagsins. Brýnt er að allt samfélagið taki þátt í þessari vegferð til að vel takist.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×