Erlent

Starfs­maður fram­boðs Trump til­búinn að bera vitni gegn kosninga­stjóranum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjárhagsstaða Gates er sögð slík að hann geti ekki staðið í kostnaðarsamri málsvörn fyrir dómstólum í lengri tíma.
Fjárhagsstaða Gates er sögð slík að hann geti ekki staðið í kostnaðarsamri málsvörn fyrir dómstólum í lengri tíma. Vísir/AFP
Rick Gates, fyrrverandi starfsmaður forsetaframboðs Donalds Trump, er sagður tilbúinn að játa á sig fjársvikabrot og bera vitni gegn Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra framboðsins. Gates og Manafort voru þeir fyrstu sem voru ákærðir í rannsókn sérstaks rannsakanda á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016.

Los Angeles Times segir að samkomulag Gates við Robert Mueller, sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, verði lagt fyrir alríkisdómstól í Washington-borg á næstu dögum. Þegar Gates var upphaflega ákærður í október lýsti hann sig saklausan af ákæru Mueller.

Samkomulagið myndi tryggja Gates verulega refsilækkun ef hann vinnur að fullu með rannsakendunum. Hann gæti þá átt yfir höfði sér eins og hálfs árs fangelsi samkvæmt heimildum blaðsins.

Gates og Manafort unnu saman hjá ráðgjafarfyrirtæki í um áratug. Þeir voru báðir ákærðir fyrir fjölda brota sem tengdust erindrekstri þeirra fyrir erlend ríki í Bandaríkjunum, þar á meðal að þeir hefðu falið milljóna dollar greiðslur sem þeir fengu frá aðilum í Úkraínu fyrir bandarískum yfirvöldum.

Eykur þrýstinginn á Manafort

Reynist frétt Los Angeles Times á rökum reist verður Gates þriðji einstaklingurinn sem játar sekt í rannsókn Mueller. Áður hafa Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, og George Papadopoulos, fyrrverandi ráðgjafi framboðsins í utanríkismálum, játað að hafa logið að alríkislögreglunni um samskipti sín við Rússa.

CNN-fréttastöðin segir að ef Gates nær samkomulagi við saksóknarana auki það þrýstinginn á Manafort um að vinna með þeim. Manafort lýsti sig saklausan af ákæru Mueller í haust. Manafort var kosningastjóri Trump þangað til í ágúst 2016. Hann steig til hliðar eftir að ásakanir komu fram um að hann hefði þegið milljónir frá stjórnmálasamtökum í Úkraínu með tengsl við rússnesk stjórnvöld.

Gates vann fyrir framboðið allt til enda og aðstoðaði einnig við undirbúning embættistöku Trump.


Tengdar fréttir

Þetta þarftu að vita um Rússarannsókn Mueller

Rannsóknin á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum í fyrra hefur aftur ratað í kastljós fjölmiðla eftir að fyrstu ákærurnar í rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar voru birtar á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×