Skoðun

Tímamót

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það er stundum talað um tímamót. Ég hef bara lifað í næstum 25 ár, sem er ekkert til að stæra sig af – margir hafa gert töluvert betur – og tímamótin örfá og stopul eftir því. En nú vill svo til að ég stend mitt á einum slíkum, tímamótum.

Í dag segi ég skilið við frístundaheimilið, sem ég hef skrifað svolítið um hér á baksíðunni, og þar með lýkur fimm ára persónulegri vegferð minni um gjöfula akra barnagæslu. Frá og með deginum í dag verður þetta allt saman að fortíð. Nístandi gul endurskinsvesti, útivera í öllum veðrum, flatkökur með kæfu og brandarar sem snúast ekki um neitt. Búið.

Og lexían er, held ég, þessi: Tímamót eru snúin. Óttablandinn léttir og kæruleysislegur kvíði. Þetta gerjast allt innra með manni á vendipunktum í lífinu. Það er erfitt að kveðja það sem er gamalt, gott og kunnuglegt og það er kannski enn erfiðara að ganga hnarreistur inn í óvissuna og sprengja utan af sér þægindafjötrana.

Þegar eftirsjáin byrjar svo að naga mann, til dæmis þegar börnin á frístundaheimilinu verða allt í einu að englum síðustu vikuna í vinnunni og efinn hreiðrar um sig, er gott að leita skjóls í klisjum. „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur,“ eru ágæt sannindi upp á framhaldið og annað sem er gott að muna er „lifðu í núinu“ og svo þarf maður líka að hafa „gríptu tækifærið“ til hliðsjónar.

Það er stundum talað um tímamót. Þetta blessast allt saman.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×