Skoðun

Mannréttindi eru hornsteinninn

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar
„Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum.“ Þannig hljóðar upphaf mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna en í ár eru sjötíu ár liðin síðan hún var samþykkt.

Tímamótanna verður minnst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna allt þetta ár en hátíðahöldin ná hámarki á alþjóðlega mannréttindadeginum, 10. desember. Sérhvert aðildarríki Sameinuðu þjóðanna er hvatt til að minnast tímamótanna, hvert með sínum hætti, stjórnvöld og almenningur. Við Íslendingar látum ekki okkar eftir liggja, nægar eru áskoranirnar á alþjóðavettvangi.

Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Við sem störfum í utanríkisþjónustunni tökum alvarlega það hlutverk okkar að tala fyrir mannréttindum, bæði á vettvangi alþjóðastofnana og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki. Sjálfur fæ ég í dag tækifæri til að ávarpa Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna öðru sinni, þegar það kemur til fundar í Genf.

Mannréttindaráðið er einn helsti vettvangur umræðu um mannréttindamál á alþjóðavettvangi. Aðildarríki SÞ eiga þar mikilvæg skoðanaskipti um stöðu mannréttinda og í ráðinu gefst tækifæri til að bera upp þær áhyggjur sem menn kunna að hafa af þróun í tilteknum ríkjum og í tilteknum málaflokkum.

Málafylgja Íslands í mannréttindaráðinu vakti athygli á síðasta ári og forystuhlutverk það sem við tókum í málefnum Filippseyja en stjórnvöld þar í landi hafa kosið að beita aðferðum í baráttu sinni gegn útbreiðslu fíkniefna sem ganga gróflega í bága við mannréttindi. Það er ánægjulegt að rödd okkar hafi heyrst, með þeim hætti sem raun bar vitni, og hvetur okkur til dáða.

Það er mikilvægt að rödd Íslands hljómi hátt og skýrt í Mannréttindaráðinu, okkar áherslur á algild mannréttindi, kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks. Við munum halda áfram að beita okkur með svipuðum hætti. Þannig stöndum við best vörð um þau réttindi sem mannréttindayfirlýsingin felur í sér.

Höfundur er utanríkisráðherra




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×