Erlent

Öryggisstjóri Facebook hættir vegna ágreinings um falsfréttir

Kjartan Kjartansson skrifar
Stamos er sagður hafa lent uppi á kant við aðra stjórnendur Facebook um hvernig ætti að taka á áróðri og falsfréttum á miðlinum.
Stamos er sagður hafa lent uppi á kant við aðra stjórnendur Facebook um hvernig ætti að taka á áróðri og falsfréttum á miðlinum. Vísir/AFP
Háttsettur stjórnandi hjá samfélagsmiðlarisanum Facebook sem hefur talað máli þess að fyrirtækið rannsaki og greini frá misnotkun Rússa á miðlinum ætlar að láta af störfum. Ástæðan er sögð ágreiningur við aðra stjórnendur um hvernig fyrirtækið eigi að taka á áróðri og falsfréttum sem er dreift á Facebook.

New York Times segir að Alex Stamos, öryggisstjóri Facebook, hafi beitt sér fyrir því að fyrirtækið tæki aðgerðir Rússa til að dreifa áróðri og hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum og hugsanlega víðar föstum tökum. Það hafi valdið öðrum stjórnendum eins og Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóra Facebook, áhyggjum.

Upphaflega hafi Stamos ætlað að hætta í desember þegar daglegum verkefnum hans var úthlutað öðrum starfsmönnum. Stjórnendur hafi hins vegar fengið hann til að vera um kyrrt þar til í ágúst þar sem þeir töldu að brotthvarf hans liti illa út í kjölfar mikillar umfjöllunar um umsvif Rússa á samfélagsmiðlinum.

Röð neikvæðra frétta

Facebook gerði lengi vel lítið úr dreifingu áróðurs og falsfrétta á miðlinum. Fyrirtækið hefur legið undir talsverðri gagnrýni fyrir aðgerðaleysi og að taka ógnina ekki nógu alvarlega. Þrettán Rússar eru á meðal þeirra sem hafa verið ákærðir í rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandarískra dómsmálaráðuneytisins á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016. Þeim er gefið á sök að hafa notað Facebook til að halda áróðri og fölskum fréttum að bandarískum kjósendum í kosningabaráttunni.

Ekki bætti úr skák þegar The Guardian og New York Times greindu frá því fyrir helgi að greiningarfyrirtækið Cambridge Analytica sem vann fyrir forsetaframboð Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefði notast við illa fengnar persónuupplýsingar um tugi milljóna notenda Facebook. Facebook vissi af því í að minnsta kosti tvö ár en virðist ekkert hafa gert fyrr en fjalla átti um málið í fjölmiðlum.

Verð hlutabréfa í Facebook lækkuðu um sjö prósentustig í dag eftir neikvæðar fréttir af fyrirtækinu. Reuters-fréttastofan segir að fjárfestar óttist meðal annars nýjar lagasetningar sem gætu skaðað auglýsingasölu Facebook.

Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 birti fréttir í dag um að forsvarsmenn Cambridge Analytica hafi talað um að beita mútum og vændiskonum til að leiða stjórnmálamenn í gildrur í löndum þar sem fyrirtækið starfar á laun við að hafa áhrif á kosningar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×