Hjálmar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, segir málið í grunninn ofureinfalt og snúast um að tryggja réttindi sjúklinga.
„Þetta snýst um lélega pólitík. Kostnaðurinn hjá okkur er rétt rúm milljón. Ég hef farið með fimm sjúklinga til Svíþjóðar. Kostnaðurinn við þær ferðir er um þrjár milljónir króna fyrir hvern sjúkling. Ég hefði haldið að það væri ákjósanlegt að gera þessar aðgerðir á mun hagkvæmari hátt fyrir hið opinbera,“ segir Hjálmar.
Í febrúar 2018 voru 709 á biðlista eftir gervilið í hné, 340 karlar og 369 konur. Á sama tíma voru 385 á biðlista eftir gervilið í mjöðm, 165 karlar og 220 konur.
„Það skortir pólitískan vilja til að gera slíkan samning við okkur. Þetta eru réttindi sem sjúklingum eru tryggð af Alþingi. Samningur sem þessi er hagkvæmur fyrir hið opinbera og enginn stjórnmálamaður myndi fara svona með heimilisbókhaldið sitt,“ bætir Hjálmar við.
Varhugavert að ganga til samninga
Á þessu ári hefur úrskurðarnefnd fjallað um tæpan tug tilvika þar sem sjúklingum var synjað um greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerða, sem framkvæmdar voru hjá Klíníkinni. Sjúkratryggingar greiða fyrir aðgerðina í Svíþjóð, auk ferðakostnaðar, uppihalds og dagpeninga, bæði fyrir sjúkling og fylgdarmann. Samanlagt er því kostnaður við aðgerðina í Svíþjóð mun hærri en hér á landi.Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna í velferðarnefnd, segir það varhugavert að gera samning við einkafyrirtæki hér á landi um gerð liðskiptaaðgerða.
Aðgerðirnar eru gerðar á Akranesi, Akureyri og í Reykjavík af hinu opinbera.
„Það þarf að horfa á þetta í stærra samhengi. Biðlistar hafa styst eftir liðskiptaaðgerðum. Bæklunarskurðlæknar þurfa ákveðinn fjölda aðgerða á ári til að viðhalda þekkingu og færni og því eru rök fyrir því að hafa liðskiptaaðgerðir á færri stöðum en fleiri hér á landi,“ segir Ólafur Þór.