Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka sem kynnt var í dag. Þar segir að þrátt fyrir að hægt hafi á fjölgun á komu bandarískra ferðamanna hingað til lands sé fjölgunin engu að síður hröð, en þeim þeim fjölgaði um 39 prósent á síðasta ári.
Segir í skýrslunni að hægt hafi á fjölgun ferðamanna frá flestum löndum, þá sérstaklega Bretlandi þar sem breskum ferðamönnum fjölgaði aðeins um tvö prósent á síðasta ári.
Sjá einnig:Mesti vöxturinn er í Airbnb
„Þessi þróun er í takt við þróun í utanlandsferðum Breta almennt um þessar mundir. Skertur kaupmáttur Breta á erlendri grundu vegna gengisfalls pundsins virðist því hafa haft talsverð áhrif á utanlandsferðir Breta,“ segir í skýrslunni.
Þá er einnig varað við því að hlutfall ferðamanna frá Bandaríkjunum hér á landi sé orðið svo hátt að ferðaþjónustan sé viðkvæm fyrir áföllum vegna breytinga á ferðatilhögum bandarískra ferðamanna.
„Í ljósi þess hve stórt hlutverk ferðaþjónustan skipar í íslensku hagkerfi má í framhaldinu segja að ferðatilhögun bandarískra ferðamanna geti haft umtalsverð áhrif á skammtímaþróun í hérlendu hagkerfi,“ segir í skýrslunni.
Sjá einnig: Ísland líklega dýrasti áfangastaður í heimi
Í skýrslunni er bent á að árið 2010 hafi þjóðerni erlendra ferðamanna sem hingað komu verið dreifðara en það er nú. Engin ein þjóð hafi verið með yfir þrettán prósent hlutdeild. Nú séu þær tvær, Bandaríkin með 26 prósent og Bretland með fimmtán prósent. Byggja þurfi á fjölbreyttari grunni til þess að koma í veg fyrir áfall.
„Í þessu samhengi er æskilegt að ferðaþjónustan byggi á fjölbreyttum grunni þannig að áfall í efnahag ákveðinnar þjóðar hafi ekki of veigamikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu og íslenska hagkerfið í heild.“
Tengd skjöl:Skýrsla Íslandsbanka um ferðaþjónustuna