Innlent

Landsliðið beint í faðm fjölskyldu eftir heimkomu í kvöld

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Engin opin rútuferð verður að þessu sinni.
Engin opin rútuferð verður að þessu sinni. Vísir/Hanna
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun halda beint í höfuðstöðvar KSÍ í Laugardalnum eftir heimkomu til Íslands í kvöld þar sem haldin verður móttaka fyrir liðið með fjölskyldumeðlimum landsliðsmanna- og starfsmanna. Ekki er stefnt að formlegri móttöku beint eftir heimkomuna líkt og eftir EM í Frakklandi fyrir tveimur árum.

Þetta staðfestir Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, í samtali við Vísi en liðið er nú statt á flugvellinum í Kaliningrad í Rússlandi þar sem beðið er eftir fluginu heim til Íslands. Áætluð heimkoma var upphaflega klukkan sex í kvöld en ljóst er að einhverjar tafir verða á fluginu og er áætluð heimkoma nú rétt rúmlega sjö í kvöld.

Íslenska landsliðið lauk sem kunnugt er leik á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær eftir frækna frammistöðu í riðlakeppninni þar sem liðið var í séns á að komast upp úr riðli sínum fram á lokamínútur leiksins gegn Króatíu í gær.

Ljóst er því að heimkoma Strákanna okkar verður mun lágstemmdari en eftir þátttöku liðsins á EM í Frakklandi. Þá var liðinu ekið beint niður í miðbær Reykjavíkur eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli. Var liðinu ekið um miðbæinn í tveggja hæða rútu áður en staðnæmst var á Arnarhóli.

Þar var hver og einn einasti leikmaður hylltur auk þess að landsliðsþjálfararnir, forsætisráðherra og formaður KSÍ héldu þar tölu. Þúsundir, eflaust hátt í tuttugu þúsund, voru mætt á Arnarhól til þess að fagna landsliðinu og var víkingaklappið fræga tekið á eftirminnilegan hátt, svo að eftir var tekið víða um heim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×