Innlent

Hegningarlagabrotum fjölgaði um sex prósent

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Brotum gegn valdastjórninni fjölgaði um 20 prósent á síðasta ári.
Brotum gegn valdastjórninni fjölgaði um 20 prósent á síðasta ári. Vísir/Vilhelm
Hegningarlagabrotum fjölgaði um sex prósent milli ára á síðasta ári og voru tilraunir til manndráps átta sem eru fleiri slík brot en síðastliðinn sextán ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri afbrotatölfræði sem ríkislögreglustjórinn hefur tekið saman.

Ef litið er til meðaltals áranna 2014 til 2016 þá fjölgaði hegningarlagabrotum um sex prósent á síðasta ári. Þar fjölgaði brotum gegn friðhelgi einkalífsins mest eða um fjórðung miðað við síðustu þrjú ár á undan, hótanir voru stærstur hluti brotanna og húsbrot þar á eftir.

Brotum gegn valdastjórninni fjölgaði þarnæst, eða um 20 prósent, og má rekja það til fjölgunar á því að fyrirmælum lögreglu er ekki hlýtt.

Þjófnaðir og innbrot eru stærsti hluti auðgunarbrota. Innbrotin voru 1.060 sem jafngildir þremur brotum á dag en brotin voru átta prósent færri á síðasta ári en síðustu þrjú ár á undan. 

Þjófnaðir voru 3.725 sem jafngildir tíu slíkum brotum á dag og fjölgaði um þrjú prósent.

Þrjú manndráp

Þrjú manndráp voru framin árið 2017. Þá voru tilraunir til manndráps átta sem eru fleiri slík brot en síðastliðinn sextán ár, eða frá því að lögregla byrjaði að taka saman tölur árið 2001.

Fjöldi grunaðra fyrir hegningarlagabrot voru 4.124 einstaklingar eða níu prósent fleiri en meðalfjöldi grunaðra árin 2014 til 2016. Karlar eru í miklum meirihluta eða um 80 prósent grunaðra. Elsti einstaklingur sem var kærður á síðasta ári var 89 ára en sá yngsti fjögurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×