Innlent

Þrír handteknir vegna líkamsárásar í Hafnarfirði

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hafði afskipti af fjölda manns vegna ölvunar- og/eða fíkniefnaaksturs.
Lögregla hafði afskipti af fjölda manns vegna ölvunar- og/eða fíkniefnaaksturs. Vísir/Vilhelm
Allar fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru fullar eftir nóttina en mikill erill var þar sem rekja mátti flest málin til ölvunarástands.

Í dagbók lögreglu kemur fram að þrír hafi verið handteknir í Hafnarfirði skömmu fyrir klukkan 21 í gærkvöldi vegna líkamsárásar, brots á vopnalögum og vörslu fíkniefna. 

Annar maður var færður í fangageymslu um 4:30 í nótt vegna gruns um líkamsárás.

Um kvöldmatarleytið var ofurölvi maður fjarlægður af veitingastað í miðbænum og í kjölfarið vistaður í fangageymslu vegna ástands.

Um klukkan 22 var tilkynnt um annan mann, einnig ofurölvi, þar sem hann var að áreita gesti á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Hann var sömuleiðis fluttur í fangageymslu vegna ástands.

Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var aðili handtekinn í Árbæ þar sem hann gerði tilraun til að ræna tösku af öðrum.

Þá segir að upp úr klukkan 23 var maður fluttur á slysadeild eftir að hafa dottið í miðborg Reykjavíkur. Er talið að sá gæti hugsanlega hafa fótbrotnað.

Lögregla hafði einnig afskipti af fjölda manns vegna ölvunar- og/eða fíkniefnaaksturs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×