Innlent

Segir afrétti ónýta og vill banna lausagöngu búfjár

Sveinn Arnarsson skrifar
Árni nefndi dæmi um að Bárðdælaafréttur og Biskupstungnaafréttur væru í raun óbeitarhæfir.
Árni nefndi dæmi um að Bárðdælaafréttur og Biskupstungnaafréttur væru í raun óbeitarhæfir.
Landgræðslustjóri segir land hér ónýtt og rofið og að lausagöngu búfjár ætti að taka af með öllu. Íslenskur jarðvegur losaði frá sér kolefni sem væri óásættanlegt í baráttu okkar gegn hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda.

„Ég er svo sem ekkert að segja neinar nýjar fréttir en það hefur legið fyrir lengi að við eigum mikið af ónýtu og rofnu landi sem grasbítar eiga ekki heima á og beit á þannig landi er ósjálfbær,“ segir Árni. „Stór svæði hér á landi eru ekki hæf til beitar og við ættum að sjá sóma okkar í að banna beit á slíku landi.“



Árni Bragason, fyrrverandi forstjóri Náttúruverndar ríkisins.
Þetta kom fram í máli hans á fagráðstefnu um skógrækt. Árni nefndi dæmi um að Bárðdælaafréttur og Biskupstungnaafréttur væru í raun óbeitarhæfir. Hann vill banna beit á slíkum svæðum.

„Það er alveg rétt að land er á mörgum stöðum í framför,“ segir Árni. „Hins vegar er það svo að við ættum að banna lausagöngu búfjár hér á landi því eigandi búfjár verður að bera ábyrgð á því fé sem hann á.“

Á tímum loftslagsbreytinga væri mikilvægt að átta sig á því að það jarðrask sem hefur átt sér stað í aldanna rás er ekki eðlilegt og að landið væri svona vegna beitar. Mætti sjá gríðarlega framför á stórum svæðum lands þar sem kindum hafi fækkað mikið síðustu ár.

„Það sem verra er að rofið land er að skila frá sér kolefni. því skiptir það miklu máli að við hættum að reka fé á óbeitarhæft land,“ segir Árni ennfremur og bætir við: „Það sem skiptir líka svo miklu máli að landið eins og það er núna er ekki náttúrulegt. Það að sjá ekki stingandi strá á stórum svæðum er vegna beitar í langan tíma. Sá gróður og sá jarðvegur sem var áður er fokinn í burtu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×