Innlent

Eftirlýstur maður framvísaði fölsuðu vegabréfi í banka

Sylvía Hall skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í dag. Vísir/vilhelm
Alls var 51 mál var bókað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag á milli klukkan 11 og 17 og því ljóst að lögregla hafði í nógu að snúast.

Upp úr hádegi í dag óskaði starfsfólk í banka miðsvæðis eftir aðstoð lögreglu eftir að erlendur karlmaður hafði framvísað fölsuðu vegabréfi og kom í ljós að maðurinn var eftirlýstur en látið sig hverfa þegar átti að fylgja honum úr landi í fyrra. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu en málið er til rannsóknar.

Í Árbæ bakkaði vinnuvél á unga konu sem gekk á gangstétt. Konan var flutt með sjúkrabíl á slysadeild með nokkra áverka en þeir eru taldir minniháttar. Ökumaðurinn er grunaður um akstur vinnuvélar án tilskilinna réttinda.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingastað í miðborginni seinnipartinn í dag eftir að ölvaðar konur á sextugsaldri neituðu að greiða reikning. Konurnar eru sagðar hafa verið með almenn leiðindi og uppsteyt en greiddu að lokum reikninginn þegar lögreglan mætti á svæðið, þó með miklum semingi.

Rétt fyrir hálf fjögur var tilkynnt um árekstur í Kópavogi. Ökumaðurinn hafði flúið vettvang og töldu vitni hann vera ölvaðan. Ökumaðurinn fannst skömmu síðar heima hjá sér undir áhrifum áfengis og var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Þá var í tvígang tilkynnt um þjófnað í verslun í Breiðholti á einnar klukkustundar tímabili en í báðum tilvikum var skýrslutaka á vettvangi og sakborningur látinn laus að henni lokinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×