„Ég lagði þessa tillögu fram í haust og hún er felld með þeim rökum að það séu engar aðstæður uppi hérlendis sem kalli á svona aðgerðir. Í lengri tíma höfum við vitað af því að það geisi mislingafaraldur í Evrópu, svo förum við að heyra af tilfellum erlendis. Þá finnst manni vera komnar upp þessar aðstæður sem borgarstjórnarmeirihlutinn var að kalla eftir,“ sagði Hildur í viðtali í útvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í gær.
Hildur segist hafa lagt tillöguna fram öðru sinni, hún hafi aftur verið felld. „ Ég átta mig eiginlega ekki á forsendunum, þau eru greinilega ekki reiðubúin til að grípa til þessara aðgerða. Þau hafa notað þau rök að þau vilji ekki jaðarsetja börn en tillagan gerði nú ráð fyrir því að gætt yrði að því,“ sagði Hildur spurð að hvaða rökum borgarstjórnarmeirihluti hafi haft fyrir því að hafna tillögu Hildar öðru sinni.
„Eftir hverju er verið að bíða?“
Eins og áður segir breytti Hildur tillögu sinni áður en hún var lögð fram í þriðja sinn. „Í millitíðinni berst erindi frá sóttvarnarlækni þar sem hann leggur það til að borgir leiti eftir samstarfi við heilsugæsluna til að auka þátttöku barna í bólusetningum. Þá legg ég fram þá tillögu að borgin leitist eftir slíku samstarfi og reyni þá að fá hjúkrunarfræðinga inn á leikskólanna eins og tíðkast í grunnskólanum. Þannig að bólusetningarnar yrði framkvæmdar inni á leikskólanum, auðvitað að gefnu samþykki foreldra,“ sagði Hildur.Tillagan veiti aukna þjónustu, til að mynda við foreldra. Hildur segir að með tillögunni séu þau börn sem ekki eru bólusett vegna gleymsku foreldra, en ekki vegna andstöðu þeirra við bólusetningar, bólusett á leikskólanum. „Þetta kerfi gæti gripið þau börn“
„Markmiðið er alltaf að auka þátttöku í bólusetningum og tryggja þetta hjarðónæmi sem við reynum að ná fram með góðri tíðni bólusetninga. Ég held við getum náð því markmiði með þessari tillögu. Maður veltir því stundum fyrir sér eftir hverju er verið að bíða, hversu mörg tilfelli þarf til þess að við teljum aðstæður vera uppi til að grípa til aðgerða?,“ sagði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavík Síðdegis í gær.