Innlent

Fjölbreytt hátíðahöld

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Frá alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins í fyrra.
Frá alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Hátíðahöld í tilefni 1. maí verða í meira en 30 sveitarfélögum samkvæmt tilkynningu frá ASÍ. Í Reykjavík verður gengið frá Hlemmi niður á Ingólfstorg þar sem útifundur verður. Fer gangan af stað klukkan 13.30.

Meðal ræðumanna á Ingólfstorgi verða Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, og Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Þá munu Bubbi Morthens og GDRN koma fram.

VR býður upp á skemmtun á Klambratúni fyrir gönguna sem hefst klukkan 11.30. Eftir útifundinn verður kaffisamsæti í anddyri Laugardalshallarinnar. Efling býður í kaffi í Valsheimilinu að Hlíðarenda að loknum útifundi.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, flytur aðalræðuna í hátíðardagskrá á Akureyri. Þar verður farið í kröfugöngu frá Alþýðuhúsinu klukkan 14.

Meðal annarra viðburða má nefna samstöðutónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði, kröfugöngu og dagskrá í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, hátíðardagskrá í íþróttahöllinni á Húsavík og kaffisamsæti í Alþýðuhúsinu í Eyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×