Prjónagleðin er árleg prjónaháíð sem haldin er af Textilmiðstöð Íslands og samstarfsaðilum. Hátíðin er haldin á Blönduósi og er fyrirmynd hennar hin árlega Prjónahátíð á Fanø í Danmörku. Fjölmörg námskeið verða í gangi alla helgina, fyrirlestrar, sölubásar verða í félagsheimilinu og þá verður boðið upp á ýmsa skemmtun eins og ratleiki, sýningar og prjónakeppni svo eitthvað sé nefnt.

„Prjónagleðin er vettvangur fyrir prjónandi fólk, sem hefur áhuga á prjónaskap, hvort heldur sem það kann að prjóna eða ekki, það er aukaatriði, en fyrir þá sem hafa gaman af því að hittast og njóta þess að vera saman og hafa prjónana, sem áhugamál. Þetta er fjölmennasta prjónagleðin hingað til og við erum mjög ánægð með móttökurnar, virkilega. Við leggjum náttúrulega mikla áherslu á að hafa flotta og virta kennara í prjónaskap og á námskeiðunum, auk spennandi fyrirlestra,“ segir Jóhanna.
Þema prjónahátíðarinnar í ár er Dagur hafsins. En eru einhverjir karlar á prjónagleðinni?
„Nei, það hefur ekki sést prjónandi karl síðan þú varst hérna í fyrra Magnús en við höldum í vonina að þeir komi fram undan skyggninu,“ segir Jóhanna hlægjandi.

En eru allir velkomnir á Prjónagleðina um helgina?
„Að sjálfsögðu og ef einhverjum langar í námskeið sem hann sér og vill skrá sig, ef það er ekki uppselt, þá er það meira en velkomið“.