Erlent

Staðfestir að Íran hafi aukið framleiðslu á auðguðu úrani

Yukyia Amano, yfirmaður IAEA
Yukyia Amano, yfirmaður IAEA Getty/Anadolu
Stjórnvöld í Íran hafa aukið við framleiðslu landsins á auðguðu úrani, þetta staðfestir Yukyia Amano, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA). BBC greinir frá.

Íran skrifaði árið 2015 undir kjarnorkusamning ásamt þeim ríkjum sem hafa fasta setu í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Eins og frægt er orðið dró Donald Trump, Bandaríkjaforseti, þjóð sína út úr samkomulaginu og hefur beitt Íran viðskiptaþvingunum á ný.

Spennan hefur því verið mikil milli samningsaðila en Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, hélt í vikunni til fundar við írönsk yfirvöld. Ræddi hann þar leiðir til þess að fá Íran aftur að samningaborðinu en utanríkisráðherra Íran hefur sagt einu leiðina til þess að leysa vandann sé að fá bandaríkin til að slaka á viðskiptaþvingunum ellegar haldi kjarnorkustarfsemi Íran áfram.

Nú hefur það verið staðfest, eins og áður segir, af Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni að framleiðslan hefur a undanförnum vikum verið aukin. Þó hefur stofnunin ekki gefið upp hversu nálægt Íran er að því að brjóta skilmálana um magn auðgaðs Úrans sem settir voru 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×