Innlent

Merkel kemur til Íslands í næstu viku

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með Merkel og Katrínu þegar þær hittust í Þýskalandi í mars í fyrra.
Vel fór á með Merkel og Katrínu þegar þær hittust í Þýskalandi í mars í fyrra. Vísir/EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fundar með forsætisráðherrum Norðurlandanna í Reykjavík í næstu viku. Loftslagsmál, málefni norðurslóða, jafnréttismál og öryggismál verða meðal annars á dagskrá árlegs samfundar ráðherranna.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu kemur fram að fundurinn fari fram þriðjudaginn 20. ágúst. Merkel verði sérstakur gestur fundarins í boði Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Leiðtogar Álandseyja og Grænlands koma einnig til fundarins.

„Sérstaklega verður horft til tækifæra til þess að auka samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst afleiðingar loftslagsbreytinga og stuðning við sjálfbæra þróun,“ segir í tilkynningunni.

Katrín og Merkel eru einnig sagðar munu eiga tvíhliða fund í tengslum við leiðtogafundinn. Þær hafa fundað í tvígang áður, í mars í fyrra og aftur síðasta sumar.

Einnig verði fundað með hópi norrænna forstjóra um sjálfæra framtíð sem vinna saman að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Fundirnir og heimsóknir í tengslum við þá verða meðal annars í Hörpu, Viðey, við Hellisheiðarvirkjun, á Þingvöllum og á Gljúfrasteini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×