Greint er frá þessu á Facebook-síðu Fangelsismálastofnunar en þar segir að vistmaðurinn hafi ekki látið það stöðva sig að geta eðli málsins samkvæmt ekki tekið þátt í maraþoninu í Reykjavík.
Hann hljóp tíu kílómetra á hlaupabretti fangelsisins á sama tíma og hlaupið var í Reykjavík. Safnaði hann áheitum fyrir Samhjálp en Vörður Leví Traustason, forstöðumaður Samhjálpar, tók við afrakstrinum í gær, samtals 200 þúsund krónum.
Markmið Samhjálpar er að veita bjargir til þeirra einstaklinga sem halloka hafa farið í lífinu, vegna áfengis- og fíknisjúkdóms, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála og með því stuðla að velferð og sjálfsbjörg þeirra.