Hljómsveitin Hundur í óskilum leikur lög við texta Jóns. Kristján Þórður mun tala um braglist Jóns.
„Hann er að mínu viti einn mesti bragsnillingur íslenskrar tungu. Það sem mér finnst sérstaklega heillandi er hvernig hann notar þríliðinn, það er að segja braglið sem er þrjú atkvæði og yrkir þannig langar ljóðlínur eins og í kvæðinu Í Árnasafni. Mér finnst líka mjög hrífandi hvernig hann notar þríliðinn í sonnettum, bæði frumortum sonnettum og líka sonnettum sem hann þýðir. Þá lætur hann stundum skiptast á í sömu ljóðlínunni tvíliði og þríliði. Bragsnilld Jóns gefur kvæðum hans kliðmýkt og áhrifamikinn hljóm. Hið kjarnmikla orðfæri Jóns er líka afar heillandi. Hugsunin er meitluð og skörp og myndmálið mjög skýrt. Mér finnst ljóð Jóns stundum vera eins og falleg íslensk vetrarbirta.“
Hryggð yfir hverfulleika
Spurður um inntak kvæðanna segir Kristján Þórður:„Það má segja að sú kennd sem ríkir í ljóðum hans sé ákveðin hryggð yfir hverfulleika lífsins og forgengileika alls, en maður skynjar samt mjög sterklega ást hans á tungumálinu, skáldskapnum og náttúrunni. Mér f innst svo fallegt hvernig hann talar um í kvæðinu Í Árnasafni að fýsnin til fróðleiks og skrifta geti lyft huganum úr dustinu. Honum er líka mjög hugleikið hið innra líf manneskjunnar, það sem lifir í huga manneskjunnar þótt margt breytist. Þó að mjög víða í kvæðum hans sé að f inna hugsanir um fánýti og fallvaltleika þá er skáldskapur hans líka stundum mjög innilegur, sérstaklega þegar hann yrkir um minningar, bernskuna og liðna tíð. Svo má ekki gleyma því að þótt Jón sé alvarlegt skáld þá eru mörg kvæði hans létt og skemmtileg. Hann er mikill húmoristi, eins og sést til dæmis í kvæðinu Á afmæli kattarins sem ég held alveg sérstaklega upp á. Svo verður að geta þess að Jón var alveg frábær ljóðaþýðandi og þar nýtur sín smekkvísi hans og vald yfir tungumálinu og bragnum.“
Dýrgripur fyrir alla
Kristján Þórður segist hafa heillast af kveðskap Jóns um leið og hann eignaðist kvæðasafn hans frá árinu 1986 skömmu eftir útgáfu þess.„Ég hef verið hugfanginn af skáldskap hans síðan. Þessi bók hefur fylgt mér mjög lengi og ég les í henni reglulega. Mér finnst alveg sérstakt gleðiefni að nú sé búið að endurútgefa kvæðasafn hans þannig að skáldskapur hans, bæði frumort ljóð og þýðingar, sé aðgengilegur nýjum lesendum. Kvæðasafn Jóns Helgasonar er dýrgripur fyrir alla þá sem unna íslenskri tungu og skáldskap.“