Erlent

Vonast til að leiðtogafundur G7 geti farið fram í Washington í júní

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Robert O'Brien þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins (t.h.).
Robert O'Brien þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins (t.h.). Getty/Chip Somodevilla

Leiðtogar G7 ríkjanna munu hittast á fundi í lok júní sagði Robert O‘Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti aflýsti fundi G7 leiðtoganna vegna kórónuveirufaraldursins sem átti að fara fram þann 10. júní.

Trump sagði á miðvikudag að ekki væri loku fyrir það skotið að leiðtogarnir kæmu saman á fundi nærri Washington borg og sagði hann það gefa heiminum þau skilaboð að allt væri að snúa í fyrra horf.

„G7 fundurinn, ef hann fer fram „í persónu“ eins og við höldum, mun fara fram í lok júní,“ sagði O‘Brien í þættinum Face the Nation hjá sjónvarpsstöðinni CBS.

Þá sagði O‘Brien að hann tryði því að höfuðborg landsins nálgaðist hápunktinn á virkum smitum og að bandarísk yfirvöld vildu helst halda fundinn augliti til auglits ef hægt væri. Deborah Birx, læknirinn sem fer fyrir kórónuveiruviðbragðsteymi Hvíta hússins, sagði hins vegar á föstudag að í Washington borg væri hæst hlutfall jákvæðra sýna í landinu öllu.

Þá sagði hún að hún hafi beðið sóttvarnarembætti Bandaríkjanna að vinna með heilbrigðisyfirvöldum í Washington, Chicago og Los Angeles að því að greina hvers vegna smitum sé að fjölga.

O‘Brien sagði að hann teldi að leiðtogar G7 ríkjanna vildu frekar hittast augliti til auglits en að funda í gegn um fjarskiptabúnað. Þá sagði hann að forsetinn hefði þegar framlengt fundarboðið og viðbrögðin hafi verið mjög góð. Tryggt yrði að allir væru heilbrigðir fyrir komu og að umhverfið yrði öruggt.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, er opinn fyrir því að ferðast til Bandaríkjanna til að funda með G7 leiðtogunum ef aðstæður leifa samkvæmt ummælum starfsmanns forsetans sem birt voru á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×