Enski boltinn

Ætla að klára tímabilið í ensku úrvalsdeildinni á sex vikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. getty/Andrew Powell

Knattspyrnustjórum liðanna í ensku úrvalsdeildinni hefur verið tjáð að þeir leikir sem eftir eru af tímabilinu verði aðeins spilaðir á sex vikum.

Vonast er til að hægt verði að klára tímabilið í byrjun ágúst. Alls eiga 92 leikir eftir að fara fram í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2019-20.

Engir leikir hafa farið fram í ensku úrvalsdeildinni síðan 9. mars vegna kórónuveirufaraldursins.

Í gær var stigið stórt skref þegar félögin ákváðu einróma á fundi sínum að heimila æfingar með snertingum.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst í fyrsta lagi helgina 20.-21. júní. Ef það gengur eftir verður leikið um sjö helgar og tvisvar sinnum í miðri viku það sem eftir lifir tímabils.

Ef keppni getur ekki hafist fyrr en helgina 27.-28. júní verður leikið um sex helgar og þrisvar sinnum í miðri viku.

Vonir standa til að hægt verði að ljúka tímabilinu sunnudaginn 2. ágúst. Stefnt er að því að hafa úrslitaleik ensku bikarkeppninnar helgina þar á eftir.


Tengdar fréttir

Fjögur smit hjá ensku úrvalsdeildarliðunum

Fjórir af 1.008 einstaklingum greindust með kórónuveiruna í þriðju umferðinni af prófum hjá ensku úrvalsdeildarliðunum í fótbolta karla en prófað var í dag og í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×