Enski boltinn

Verður Ighalo áfram í Manchester borg?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís.
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís. vísir/getty

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United er við það að framlengja lánsamning Odion Ighalo sem er á láni frá kínverska félaginu Shanghai Shenhua. Núverandi lánsamningur félaganna rennur út á sunnudaginn eftir viku.

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man United, vill halda nígeríska framherjanum í herbúðum sínum þangað til í janúar á næsta ári. Það þýðir að Ighalo myndi missa af meirihluta kínversku úrvalsdeildarinnar sem á að hefjast í júní.

Upphaflega vildi Shenhua aðeins lána Ighalo með þvi skilyrði að Man Utd myndi kaupa hann ef leikmaðurinn næði ákveðnum leikjafjölda. Nú er komið annað hljóð í strokkinn en óljóst er hvort Ighaldo geti farið aftur til Kína á næstunni vegna kórónufaraldursins. 

Hann myndi því hvort eð er missa af fjölda leikja liðsins og því gæti verið vænlegast að framlengja lánsdvöl hans í Manchester.

Sky Sports greinir frá. Þá er talið að kínverska félagið hafi boðið Ighalo nýjan samning á dögunum. Núverandi samningur hans við félagið rennur út í desember 2022 en sá nýi gildir til desember 2024 og myndi gefa Ighalo 400 þúsund pund á viku eða litlar 67 milljónir króna.

Ighalo lék átta leiki fyrir Manchester United eftir að hafa komið á láni í janúar á þessu ári. Skoraði hann fjögur mörk fyrir félagið en framherjanum stóra og stæðilega tókst ekki að skora í úrvalsdeildinni. Hann virðist nú fá frekari tækifæri til þess en hann er hugsaður sem varaskeifa fyrir þá Anthony Martial og Marcus Rashford.

Þá gefur hann Solskjær aðra valmöguleika í framlínunni en þessi þrítugi framherji er töluvert líkamlega sterkari en aðrir framherjar United liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×