Búið er að slökkva mikinn gróðureld sem kviknaði við Ásvelli í Hafnarfirði á sjöunda tímanum í kvöld. Allt tiltækt slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar voru sendir á vettvang og mikinn reyk lagði yfir svæðið á tímabili. Nágrannar hjálpuðu til við að slökkva eldinn.
Tilkynnt var um brunann um klukkan hálf sjö og slökkvilið kom á vettvang skömmu síðar. Um „heilmikinn“ bruna var að ræða, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Slökkvilið náði tökum á eldinum um áttaleytið og um fimmtán mínútum síðar var búið að slökkva hann. Nú er unnið að því að tryggja að ekki kvikni aftur eldur á svæðinu.
Vettvangurinn er langt frá vegi og því þurfti að leggja langar slöngur frá dælubílum og að brunanum. Íbúar í nágrenninu aðstoðuðu slökkvilið við að ráða niðurlögum eldsins og notuðu svokallaðar „klöppur“ sem iðulega er beitt við sinubruna til að berja niður eldinn.
Þá var nokkuð hvasst á vettvangi sem gerði brunann erfiðan við að etja. Varðstjóri gat ekki sagt til um það hversu stórt svæði var undirlagt brunanum.
Fréttin var uppfærð klukkan 21:04.