Enski boltinn

Ungstirni verðandi Englandsmeistara Liverpool segir Beckham þann besta í sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spyrnutækni Trent Alexander-Arnold hefur verið líkt við spyrnutækni hins magnaða David Beckham.
Spyrnutækni Trent Alexander-Arnold hefur verið líkt við spyrnutækni hins magnaða David Beckham. EPA-EFE/PETER POWELL

Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður verðandi Englandsmeistara Liverpool, skoraði stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu í 4-0 sigri á Crystal Palace í gær. Sigurinn þýðir að Liverpool er nú aðeins einum leik – fari það svo að Manchester City vinni ekki Chelsea á Brúnni í kvöld – frá fyrsta Englandsmeistaratitli liðsins í 30 ár eða frá 1990.

Spyrnutækni hins unga Alexander-Arnold þykir minna á spyrnutækni David Beckham sem gerði garðinn frægan með Manchester United, Real Madrid og LA Galaxy á árum áður. Í dag er Beckham einn af eigendum Inter Miami sem leikur í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Eftir leik gærdagsins ræddi Trent við Sky Sports í dag. Aðspurður hvort hann hefði getað hitt boltann betur í markinu var svarið frekar einfalt.

„Ég held ekki,“ svaraði bakvörðurinn um hæl.

Í kjölfarið var honum sagt að Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og sérfræðingur Sky Sports, hefði líkt tækninni við þá hjá Beckham. Var leikmaðurinn svo spurður hversu mikið hrós það væri.

„Það er augljóslega mikið hrós enda er hann líklega sá besti í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Það er þó enn mikil vinna til að komast á sama stall og Beckham,“ sagði auðmjúkur Trent einnig en viðtalið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×